Innlent

Ætla að verja tæplega 1.300 milljörðum til þróunar á nýjum sýklalyfjum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bo Könberg má sjá hér lengst til vinstri.
Bo Könberg má sjá hér lengst til vinstri.
Sænski stjórnmálamaðurinn Bo Könberg skilaði í dag af sér skýrslu um framtíðarsýn norræns samstarfs um heilbrigðismál. Skýrslan inniheldur 14 tillögur sem eiga að vera framkvæmanlegar á 5–10 ára tímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Brýnasta málefnið varðar baráttuna gegn sýklalyfjaþoli og er í skýrslunni lagt til að Norðurlöndin beiti sér á alþjóðavísu og að auðugustu löndin verji 75 milljörðum sænskra króna á næstu 5 árum til þróunar á nýjum sýklalyfjum. Það samsvarar 1.278 milljörðum íslenskra króna.  

Norræna ráðherranefndin á sviði félags- og heilbrigðismála ásamt framkvæmdastjóra nefndarinnar fólu Bo Könberg að kanna hvernig auka mætti norrænt samstarf um heilbrigðismál.

Fram kemur í tilkynningunni að tillögurnar 14 fjalli um uppáskriftir fyrir sýklalyfjum, mjög sérhæfðar meðferðir, sjaldgæfa sjúkdóma, rannsóknir byggðar á gögnum úr sjúkraskrám, lýðheilsu, misrétti í heilbrigðismálum, hreyfanleika sjúklinga, rafræna heilbrigðisþjónustu og tæknimál, geðlækningar, viðbúnað í heilbrigðismálum, lyf, starfsmannaskipti og sérfræðinga í löndum ESB.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra tók í dag við skýrslunni fyrir hönd Íslands, sem gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, og munu norrænu félags- og heilbrigðisráðherrarnir ræða tillögurnar nánar í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×