Innlent

„Mikill heiður að ná kjöri“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tómas H. Heiðar með Grétu Gunnarsdóttur, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (t.h.) og Maríu Mjöll Jónsdóttur hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (t.v.)
Tómas H. Heiðar með Grétu Gunnarsdóttur, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (t.h.) og Maríu Mjöll Jónsdóttur hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (t.v.)
„Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna, og það verður að teljast mikill heiður að ná kjöri í eitt af þremur sætum Vesturlanda í dóminum,“ segir Tómas H. Heiðar sem var í dag kjörinn dómari við Alþjóðlega hafréttardóminn á fundi aðildarríkja hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum.

Tómas hlaut 124 atkvæði en mótframbjóðandi hans frá Austurríki hlaut þrjátíu atkvæði. Tómas mun taka við dómaraembættinu 1. október næstkomandi og var hann kjörinn til níu ára. Hafréttardómurinn hefur aðsetur í Hamborg í Þýskalandi og er skipaður 21 dómara, þar af þremur frá Vesturlöndum. 

Tómas með kærustu sinni.
Tómas hefur gegnt starfi þjóðréttarfræðings í utanríkisráðuneytinu frá árinu 1996 og er hann jafnframt forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands.

„Ég hef tekið mjög virkan þátt í samningaviðræðum á sviði hafréttar í tuttugu ár og á sviði Sameinuðu þjóðanna og í rauninni fannst mér tímabært að breyta til en halda samt áfram að vinna á sama sviði. Það má því segja að þetta hafi verið rökrétt næsta skref,“ segir Tómas.

Eins og fyrr segir mun Tómas taka við embættinu 1.október næstkomandi og lætur þá af störfum í utanríkisráðuneytinu. Hann mun þó áfram gegna starfi forstöðumanns Hafréttarstofnunar Íslands.

„Ég hlakka bara til að takast á við þetta verkefni,“ segir Tómas að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×