Innlent

Gefur andvirði bjórs til brasilískra barna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Pétur Maack sér fram á að horfa á um 20 leiki á mótinu.
Pétur Maack sér fram á að horfa á um 20 leiki á mótinu.
„Það er ferlega gaman að sjá hvað þetta virðist vera að fá mikla dreifingu,“ segir Pétur Maack, norðlenskur sálfræðingur og knattspyrnuáhugamaður sem setti inn færslu á Facebook-síðu sína í gærkvöldi sem vakið hefur töluverða athygli.

Pétur er einn af mörgum sem beðið hafa spenntir eftir því að flautað verði til leiks á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en í kjölfar þrálátra frétta af spillingu hjá alþjóðaknattspyrnusambandinu, mótmælum í Brasilíu og bágum aðbúnaði verkafólks í Katar hafa runnið á hann tvær grímur. „FIFA er semsagt að gera sitt besta til að ræna mig ánægjunni af fótbolta. Spilla ástinni,“ segir hann í færslunni og bætir við að eftirvæntingin fyrir mótinu hafa því verið minni en oft áður.

Hann eigi þó erfitt með að segja skilið við fótboltaglápið. „Engin íþrótt nartar í hælana á fótbolta þegar kemur að skemmtigildi og ánægju,“ segir hann og er hann því dauðfeginn að hafa, sólarhring áður en fyrstu tuðrunni er sparkað, fundið leið til að láta sér líða aðeins betur með að horfa á HM. „Og verða þannig hluti af áhorfendaskaranum sem sér til þess að milljarðarnir halda áfram að streyma til FIFA.,“ eins og hann komst að orði.

Í friðþægingarskyni hefur hann ákveðið að finna og styrkja góðgerðasamtök sem vinna með krökkum í favelum Brasilíu en barnafátækt er gríðarlegt vandamál þar í landi. Vísir hefur flutt fréttir af barnungum stúlkum sem leiðst hafa út í vændi vegna keppninnar sem þó er ekki hafin og mótmælum innfæddra sem hafa fengið sig fullsadda af fjáraustri yfirvalda í mótið.

Messi og argentínskir félagar hans njóta stuðnings Péturs á mótinu.
Pétur hefur því ákveðið að í staðinn fyrir að fá sér bjór yfir leikjunum sem hann kemur til með að horfa á á heimsmeistarmótinu ætli hann að styrkja brasilísk góðgerðarsamtök um upphæð sem nemur einum bjór fyrir hvern einasta hálfleik sem hann situr fyrir framan sjónvarpstækið.

„Ég umbylti ekki heiminum með því að senda smáupphæð til Brasilíu en peningarnir gera þó vonandi gagn. Þó að það fáist ekki mikið fyrir þúsundkall hér heima núorðið getur hann komið blásnauðu brasilísku barni til góða,“ segir Pétur.

Svona útskýrir hann í færslunni hvernig hann ætlar að fara að þessu:

„Algengt verð á íslenskum flöskubjór er um 400 krónur svo að á heilan knattspyrnuleik verða þetta 800 krónur. Nái ég að horfa á 20 leiki mun ég því gefa 16.000. Verði freistingin óbærileg og ég fái mér bjór yfir leik eða leikjum bæti ég við 400 krónum fyrir hvern bjór. Ef ég næ að horfa á 20 leiki og drekka tíu bjóra mun ég því gefa 20.000. Upphæðina reiði ég fram 13. júlí n.k. sama dag og úrslitaleikurinn fer fram og HM lýkur.“

Í samtali við Vísi segir Pétur að hann hafi ekki ákveðið enn hvaða samtök verða fyrir valinu. „Ég er að reyna að finna eitthvað sem er ekki bara einhver skrifstofa í London eða New York. Samtökin þurfa að vera lókal og vinna með börnum í fátæktrahverfum Brasilíu,“ segir hann og bætir við að taki við öllum tillögum.

Hann skorar á alla aflögufæra fótboltaáhugamenn sem eru í sömu stöðu og hann að finna sér leið til að styðja við brasilísku þjóðina. „Þó að hvert framlag skipti ekki sköpum geta mörg lítil framlög haft mikil áhrif,“ segir Pétur.

Aðspurður um hvaða knattspyrnulið á mótinu muni njóta stuðnings hans stóð ekki á svörum: „Ætli það verði ekki Argentína, eins og venjulega.“

Færslu Péturs má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Skera upp herör gegn barnavændi

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst eftir nokkra daga. Meðal verkefna yfirvalda í Brasilíu í aðdraganda mótsins hefur verið að reyna að stemma stigu við barnavændi, en talið er að allt að um hálf milljón barna gangi kaupum og sölum þar í landi.

Óttast að barnavændi muni margfaldast í kringum HM

Börn allt niður í tíu ára aldur eru neydd til að selja líkama sinn til að afla fjár, en talið er að með því að selja barn í vændi á meðan heimsmeistaramótinu stendur sé hægt að þéna nógu mikinn pening til þess að brauðfæða fjögurra manna fjölskyldu í heilt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×