Innlent

ESB tekur undir að verðtrygging fari gegn tilskipun um neytendalán

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björn Þorri Viktorsson einn lögmanna mannsins sem Landsbankinn stefndi í málinu. Héraðsdómur Reykjavíkur óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í desember í fyrra. Björn Þorri fór ásamt hópi lögmanna til Lúxemborgar á sunnudag en málið var flutt fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg í gær.
Björn Þorri Viktorsson einn lögmanna mannsins sem Landsbankinn stefndi í málinu. Héraðsdómur Reykjavíkur óskaði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í desember í fyrra. Björn Þorri fór ásamt hópi lögmanna til Lúxemborgar á sunnudag en málið var flutt fyrir EFTA-dómstólnum í Lúxemborg í gær.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur undir málatilbúnað Íslendings sem var stefnt af Landsbankanum og byggir á því að verðtrygging á neysluláni sínu sé ekki skuldbindandi þar sem hún gangi í berhögg við tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán.

Þetta kemur fram í greinargerð framkvæmdastjórnarinnar (e. written observation) í málinu sem fréttastofan hefur undir höndum og má nálgast neðst í fréttinni.

Málið hjá EFTA-dómstólnum snýr að ráðgefandi áliti sem Héraðsdómur Reykjavíkur óskaði eftir vegna stefnu Landbankans á hendur einstaklingi vegna verðtryggðs neysluláns sem hann tók hjá bankanum. Óskað var eftir ráðgefandi áliti hinn 17. desember í fyrra. 



Héraðsdómur lagði sex sundurliðaðar spurningar fyrir dómstólinn. Fyrsta spurningin fjallar um það hvort það samrýmist tilskipun ESB 87/102 um neytendalán að þegar lánssamningur er gerður sem tengdur er við vísitölu neysluverðs í samræmi við heimild í settum lögum, og höfuðstóll lánsins breytist breytist í samræmi við verðbólgu, þegar útreikningur á heildarkostnaði lánsins, og af árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtist til skuldara (neytanda) þegar samningurinn er gerður, byggist á 0% verðbólgu, en ekki á þekktri verðbólgu á þeim degi þegar lánið er tekið. 

Þarna er verið að leita álits dómstólsins á því hvort slíkur lánasamningur gangi í berhögg við tilskipun 87/102 um neytendalán (og þeim tilskipunum sem hafa breytt henni) ef heildarlántökukostnaðurinn, eins og hann birtist á skriflegum samningi, miðist við 0% verðbólgu á samningsdegi. Þetta snýst í rauninni um það hvað skuldarinn mátti vita þegar hann ritaði undir samning vegna lánsins. Hvort það sé í samræmi við umrædda tilskipun að sýna heildarlántökukostnað eins og ætluð verðbólga sé 0% á samningsdegi.   

Tilgreina þarf heildarlántökukostnað

Álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á þessu, samkvæmt greinargerðinni, er að ákvæði tilskipunar 87/102 verði túlkuð þannig að þau útiloki að áætlaður heildarlántökukostnaður þegar lánið er veitt miðist við 0% verðbólgu í stað verðbólgu á samningsdegi. Ráða má af svarinu af framkvæmdastjórn ESB telji að tilgreina verði heildarlántökukostnað á samningsdegi, þ.e. þegar lán er veitt. Þannig tekur framkvæmdastjórnin í raun undir skýringar íslensku lögmannanna á tilskipuninni.

Meðal málsmeðferðartími hjá EFTA-dómstólnum hefur verið á bilinu 6-7 mánuðir en nokkuð skemmri þegar ráðgefandi álit er að ræða. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmir í málinu þegar álitið liggur fyrir.

Þótt álitið sé ráðgefandi þá hafa íslenskir dómstólar yfirleitt lagt túlkun EFTA-dómstólsins á tilskipunum Evrópusambandsins til grundvallar þegar dæmt hefur verið í málum þar sem aflað hefur verið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×