Erlent

Augun breytast við að stara á tölvuskjá

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vinna við tölvuskjá hefur áhrif á prótein í augunum.
Vinna við tölvuskjá hefur áhrif á prótein í augunum. Mynd/AFP
Augn- eða tárvökvi þeirra sem verja tíma sínum í vinnunni við tölvuskjá breytist og verður eins og augnvökvi þeirra með sjúkdóminn „dry eye“ samkvæmt nýrri rannsókn birtri í Jama Ophthalmology. The Independent greinir frá.

Augnfilman sem heldur auganu röku er mynduð af sérstöku próteini sem kallast MUC5AC. Rannsóknin sýndi fram á að þeir sem sitja hvað mest fyrir framan tölvuskjá hafa nálægt sama magn af próteini og þeir sem greindir hafa verið með sjúkdóminn „dry eye“ sem á íslensku myndi útleggjast: þurr augu. Sjúkdómurinn „dry eye“ er ástand sem kemur upp þegar augun framleiða ekki nægilega mikið af tárum eða tárin gufa upp of hratt.

Rannsóknarteymið sem leitt var af doktor Yuichi Uchino, rannsakaði tár 96 japanskra skrifstofustarfsmanna og mældi hversu mikið af fyrrnefndu próteini var í augum þeirra.

Afgerandi niðurstöður en hægt að minnka hættuna

Uchino sagði að þegar starað er á skjá séu augun almennt opnari og þá sé aukið varnarlaust svæði augnanna og sjaldgæfara að menn blikki augunum. Þetta hraði uppgufun augnvökva.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu það í ljós að þeir þátttakendur rannsóknarinnar sem verja meira en sjö tímum á hverjum degi fyrir framan tölvuskjá höfðu að meðaltali 5,9 ng/mg af MUC5AC próteininu í augunum miðað við 9.6 ng/mg þeirra sem stara á skjáinn í minna en 5 tíma á degi hverjum.  Í samanburði má nefna að þeir sem eru með sjúkdóminn „dry eye“ hafa 3,5 ng/mg af próteininu að meðaltali. 

Uchino nefndi nokkur ráð fyrir þá sem vilja minnka hættuna á þurrum augum. Ásamt því að nota rakatæki á skrifstofu og forðast það að vera í beinni línu við vind frá loftkælingartæki er hægt að lækka skrifborðið og halla skjánum aftur. Þá horfir maður niður og opnar augun minna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×