Innlent

Taldi að sjálfstæðismenn myndu ræða fyrst við framsókn

Höskuldur Kári Schram skrifar
Birkir J. Jónsson oddviti framsóknarmanna í Kópavogi.
Birkir J. Jónsson oddviti framsóknarmanna í Kópavogi.
Birkir J. Jónsson oddviti framsóknarmanna í Kópavogi segir að það hafi komið verulega á óvart að sjálfstæðismenn hafi ákveðið að hefja formlegar meirihlutaviðræður við Bjarta framtíð.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og oddviti sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu fundaði formlega með Theodóru S. Þorsteinsdóttur oddvita Bjartrar framtíðar í morgun um myndun meirihluta. Flokkarnir eru samanlagt með sjö bæjarfulltrúa af ellefu.

Sjálfstæðismenn geta einnig myndað meirihluta með framsóknarmönnum sem fengu einn bæjarfulltrúa en flokkarnir voru í meirihlutasamstarfi á síðasta kjörtímabili.

Birkir J. Jónsson, oddviti framsóknarmanna í Kópavogi, segir að það hafi komið á óvart að sjálfstæðismenn hafi ákveðið að hefja formlegar meirihlutaviðræður við Bjarta framtíð.

„Við vorum búnir að handsala það ég og Ármann Kr. Ólafsson að héldi meirihlutinn þá myndum við ræða saman að afloknum kosningum og ég reyndar sagði það í kosningabaráttunni. Þetta kemur sérstaklega á óvart vegna þess að báðir flokkarnir bættu verulega við sig í kosningunum og við höfum átt mjög farsælt samstarf í Kópavogi síðustu 22 ár af 24. Þannig að þetta óneitanlega kemur á óvart,“ segir Birkir.

Ef viðræður sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar skila ekki árangri ert þú þá ennþá tilbúinn til samstarfs og viðræðna við sjálfstæðismenn?

„Það er ljóst að Björt framtíð er þeirra fyrsti kostur. Ekki framsóknarmenn. Þannig að við þyrftum að ræða það í okkar baklandi hver næstu skref yrðu,“ segir Birkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×