Innlent

Reynsla Íslands í landgræðslumálum nýtist í alþjóðlegu samhengi

Randver Kári Randversson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og Monique Barbut, framkvæmdastýra Eyðimerkursamnings SÞ.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og Monique Barbut, framkvæmdastýra Eyðimerkursamnings SÞ. Mynd/utanríkisráðuneytið
Monique Barbut, framkvæmdastýra Eyðimerkursamnings Sameinuð Þjóðanna, er nú í heimsókn á Íslandi. Samningurinn er einn hinna þriggja stóru umhverfissamninga sem urðu til á ríkjaráðstefnu í Rio de Janeiro árið 1992 og er þetta í fyrsta sinn sem framkvæmdastjóri eins þeirra heimsækir landið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fundaði með Barbut í morgun. Á fundi þeirra sagði Barbut að rík hefð og reynsla Íslands í landgræðslumálum geti nýst í alþjóðlegu samhengi, en eyðimerkurmyndun og landeyðing í heiminum er með allra stærstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir og ógnar fæðuöryggi. Á Íslandi er nú starfræktur Landgræðsluskóli Háskóla SÞ sem fjöldi nemenda frá þróunarlöndum hefur stundað nám við. 

Þau ræddu einnig um það hvernig Ísland hefur á þessu ári lagt stigvaxandi áherslu á landnýtingarmál innan SÞ, meðal annars með stofnun og forystu í ríkjahópi um þau mál í höfuðstöðvum SÞ í New York. Þá lagði ráðherra áherslu á að landnýtingarmál fái sess við hæfi í nýjum þróunarmarkmiðum sem unnið er að innan SÞ.

Barbut talaði á opnum fundi í Þjóðminjasafni Íslands í hádeginu í dag, ásamt umhverfisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×