Innlent

Ræddi tvíhliða samvinnu við Pólverja

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Elzbieta Bienkowska, aðstoðarforsætisráðherra Póllands, sem er einnig ráðherra innviða og þróunar en þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Fram kemur í tilkynningunni að ráðherrarnir hafi rætt um leiðir til að efla tvíhliða samvinnu ríkjanna, einkum á sviði jarðhitanýtingar, á sviði mennta- og menningarmála og rannsókna og vísinda.

„Við höfum rætt um þá möguleika sem eru á samvinnu landanna. Stuðningur Póllands við Ísland þegar á reyndi gleymist seint og við viljum gjarnan stefna að aukinni samvinnu á sviðum þar sem sérþekking Íslands getur orðið Pólverjum að liði. Þar liggur beinast við að horfa til jarðhita,“ segir Gunnar Bragi.

Í kvöld verður Gunnar Bragi viðstaddur afhendingu fyrstu samstöðuverðlaunanna í Varsjá í boði Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands.

Verðlaunin eru til þess að minnast þess að 25 ár eru liðin frá fyrstu frjálsu kosningunum í Póllandi, en þær mörkuðu þáttaskil í þeirri atburðarás sem leiddi til falls kommúnismans í Austur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×