Innlent

Verkfall náttúrufræðinga ólöglegt

Samúel Karl Ólason og Bjarki Ármannsson skrifar
Fyrirhugað verkfall hefði haft mikil áhrif á starfsemi spítalans, þá sérstaklega blóðbankans.
Fyrirhugað verkfall hefði haft mikil áhrif á starfsemi spítalans, þá sérstaklega blóðbankans. Vísir/GVA
Verkfall náttúrufræðinga á Landspítalanum hefur verið úrskurðað ólöglegt af Félagsdómi og mun því ekki verða af því á morgun. Um 70 náttúrufræðingar starfa á Landspítalanum. Fyrirhugað verkfall hefði haft mikil áhrif á starfsemi spítalans, þá sérstaklega blóðbankans.

Einungis hefði verið hægt að sinna neyðargjöfum á blóði á meðan á verkfallinu stæði.

Verkfallsboðuninni var vísað til Félagsdóms þar sem deilur voru um hvort boðun verkfallsins hefði verið lögleg.

„Verkfallið er boðað til að fylgja eftir gerð stofnanasamnings. Þeir segja að það gangi ekki upp. Við vissum alveg að við vorum að reyna að fara yfir, athuga hvað við kæmumst langt. Þá er spurning hvort það sé hægt að fara í verkfall til að fylgja almennt eftir samningum,“ segir Páll Halldórsson, formaður FÍN.

Fundur hefur verið boðaður í fyrramálið þar sem staðan verður rædd.

„Við vissum alltaf að við vorum á gráu svæði þarna, það var öllum það ljóst. Við þurfum að skoða bara hvað kemur úr þessari stöðu, hvað gerist næst. Við höfum boðað okkar fólk á fund í fyrramálið til að fara yfir þessa stöðu. Þessu er ekki lokið fyrr en það er búið að leysa úr þessu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×