Innlent

Ágreiningsmál koma upp í fjölmenningarsamfélögum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra var gestur Bylgjunnar í morgun.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra var gestur Bylgjunnar í morgun.
„Þetta endurspeglar að við búum í miklu fjölmenningarlegra samfélagi en áður og þá koma upp ýmis ágreiningsmál,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, sem var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Eygló var spurð út í umræðuna í samfélaginu fyrir sveitastjórnarkosningar. Hún sagði að það að Salman Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima, hafi þurft að sæta líflátshótunum vegna trúarskoðana sinna samræmist ekki gildum íslensks samfélags og bætti við: „Það er líka mjög erfitt fyrir heila stjórnmálahreyfingu að sitja undir því að það eigi að útrýma okkur. Vegna þess að við höfum ákveðnar stjórnmálaskoðanir, vegna þess að einstaklingar segja eitthvað sem er hluti af þessari hreyfingu okkar. Þannig að þess vegna er svo mikilvægt núna að við öndum og reynum að taka samtalið.“

Eygló sagði fjölmiðla þurfa að axla ábyrgð, þegar fjallað væri um aðra menningarheima: „Sú sýn til dæmis sem við erum að sjá á aðra menningarheima getur verið ansi neikvæð.“

Hún sagði breytingar á íslensku samfélagi geta skapað ótta. „Þær geta skapað ótta, þær geta skapað raunveruleg vandamál. Þannig að við verðum, held ég, öll – og þá líka fjölmiðlar og stjórn og hvert og eitt okkar – að hvetja til skynsamlegrar umræðu um þessi mál og hvernig við tökum á þeim. Það er áhyggjuefni að brottfall ungra drengja er hærra, að börn af erlendum uppruna eiga erfiðara með að fara áfram í nám, við erum með könnun frá Rauða krossinum sem segir að það séu að aukast fordómarnir hér. En við tökum ekki á því með að þagga málið niður.“

Eygló vildi færa umræðuna á hærra plan. Hún sagði það vera mikilvægt að hafa upplýsingar og staðreyndir að vopni til þess að bæta umræðuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×