Innlent

Nákvæmasta myndin af sögu alheimsins

Bjarki Ármannsson skrifar
Myndin sýnir um tíu þúsund vetrarbrautir, sem allar hafa að geyma hundruð milljarða stjarna.
Myndin sýnir um tíu þúsund vetrarbrautir, sem allar hafa að geyma hundruð milljarða stjarna. Mynd/NASA
Þessi magnaða mynd er sú nákvæmasta sem tekin hefur verið af þróunarsögu alheimsins, en hún var tekin af Hubble-stjörnusjónaukanum á tímabilinu 2003 til 2013. Hún hefur vakið mikla athygli áhugamanna um himinhvolfið, meðal annars hér á Íslandi.

„Þegar þú horfir út í geiminn, þá horfir þú alltaf aftur í tímann,“ segir Sævar Helgi Bragason hjá Stjörnufræðivefnum. „Þetta er eins og að horfa á bíómynd og sjá alla rammana langt aftur. Á þessari mynd sjáum við vetrarbrautir sem eru misþróaðar, bara eftir því hvað þær eru gamlar.“

Hann bendir á að margar stjarnanna í mörgum þeirra sólkerfa sem sjást á myndinni eru löngu horfnar. Þær eru hinsvegar í svo langri fjarlægð frá okkur að ljósið frá þeim er enn að berast til Jarðar.

„Þær vetrarbrautir sem eru lengst í burtu á myndinni eru kannski tíu milljarða ljósára í burtu, sem urðu til aðeins örfáum hundruðum milljónum ára eftir Miklahvell.“

Getur sagt okkur gríðarlega mikið

Myndin sýnir um tíu þúsund vetrarbrautir, sem allar hafa að geyma hundruð milljarða stjarna. Sævar undirstrikar hins vegar að þetta er aðeins agnarsmár hluti af öllu himinhvolfinu.

„Ef þú tekur títuprón og heldur á honum í útréttri hendi, þá nær myndin yfir jafnstórt svæði og er á bakvið títuprjónshausinn. Þannig að þú getur rétt ímyndað þér hvað allt himinhvolfið geymir margar vetrarbrautir.“

Að sögn Sævars getur myndin getur sagt okkur gríðarlega mikið um þróunarsöguna, meðal annars hvernig okkar vetrarbraut myndaðist.

„Þetta gefur okkur býsna góða hugmynd um það hvernig heimurinn okkar hefur þróast, hvernig vetrarbrautir hafa þróast og hvernig stjörnur hafa þróast.“

Fyrir utan það hvað myndin gæti gagnast okkur í að fræðast um heiminn sem við búum í, hefur hún líka óneitanlega nokkurt fagurfræðilegt gildi.

„Þetta er náttúrulega bara glæsileg mynd,“ segir Sævar. „Þetta er einhver litríkasta mynd sem Hubble hefur tekið af þróunarsögu alheimsins.“  

Nánar má lesa um myndina og tilurð hennar í grein Stjörnufræðivefsins. Hér fyrir neðan er myndband Evrópsku geimrannsóknarstöðinnar þar sem myndin er skoðuð betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×