Innlent

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn í samstarf í Borgarbyggð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa undirritað samkomulag um meirihlutasamstarf í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Björn Bjarki Þorsteinsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, verður forseti sveitarstjórnar og Guðveig Anna Eyglóardóttir, oddviti framsóknarmanna, verður forseti byggðarráðs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá D- og B-listum í Borgarbyggð, en þar segir einnig að gengið hafi verið frá samkomulagi við Kolfinnu Jóhannesdóttur, núverandi skólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar, um starf sveitarstjóra í Borgarbyggð.

„Við lítum björtum augum fram á veginn. Þetta er öflugur hópur sem myndar meirihlutann og það er okkar markmið að skapa góðan vinnuanda í sveitarstjórninni,“ segir í tilkynningunni sem þau Björn Bjarki og Guðveig sendu frá sér.

Tilkynninguna alla má lesa hér að neðan:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar hafa undirritað samkomulag um meirihlutasamstarf í sveitarstjórninni.  Forseti sveitarstjórnar verður Björn Bjarki Þorsteinsson, oddviti Sjálfstæðismanna, og Guðveig Anna Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna, verður formaður byggðarráðs.  Jafnframt hefur verið gengið frá samkomulagi við Kolfinnu Jóhannesdóttur, núverandi skólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar, um starf sveitarstjóra í Borgarbyggð.

Kolfinna hefur víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun, hún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og átti m.a. sæti í sveitarsjórn Borgarbyggðar á árunum 1998 til 2006. Hún er með BS í viðskiptafræði og MA nám frá Háskólanum á Bifröst. Kolfinna er auk þess með diplóma í  Educational leadership and management frá Nottingham university og kennslufræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Hún stundaði nám við London School of Economics and Political Science sumarið 2009. Kolfinna er búsett í Norðtungu, hennar maður er Magnús Skúlason og eiga þau þrjá uppkomna syni.


Við lítum björtum augum fram á veginn segja þau Bjarki og Guðveig, þetta er öflugur hópur sem myndar meirihlutann og það er okkar markmið að skapa góðan vinnuanda í sveitarstjórninni allra segja þau. Nafn Kolfinnu kom upp í samtali okkar strax á sunnudaginn og eftir að hafa átt samtöl við hana kom glöggt í ljós að Kolfinna hafði áhuga og metnað til að taka þetta krefjandi starf að sér þannig að horfið var frá því að auglýsa starfið fyrst að heimamanneskja með alla þá þekkingu og burði sem Kolfinna hefur var klár í slaginn.

Það eru margir jákvæðir hlutir að gerast í samfélaginu og það er hlutverk sveitarstjórnar að styðja við bakið á öflugu mannlífi og það ætlum við að gera auk þess sem við þurfum að beita okkur í samskiptum við ríkisvaldið varðandi opinber störf, bættar vegasamgöngu, öflugri nettengingar og áfram mætti telja, framtíðin er björt í Borgarbyggð og við megum ekki láta svona hluti verða einhvern þröskuld í veginum til að gera gott samfélag enn betra.


f.h. D og B lista í Borgarbyggð

Björn Bjarki Þorsteinsson og Guðveig Anna Eyglóardóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×