Innlent

Vonin skiptir öllu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ghasem Mohammadi var í gær kallaður á fund hjá ríkislögreglustjóra þar sem honum var tilkynnt að Innanríkisráðuneytið hefði úrskurðað um að Útlendingastofnun endurskoðaði ákvörðun sína um brottvísun hans. Hann verður því ekki sendur úr landi að svo stöddu og mun mál hans fá efnislega meðferð.

Nú hef ég að minnsta kosti von og tækifæri til að reyna aftur. Ég er bjartsýnni á framtíðina. Vonin er það eina sem skiptir máli,“ segir Ghasem sem er ánægður þó enn sé nokkuð í land.

„Ég leitaði að öruggum stað og fann hann. Mér er sama hvernig Útlendingastofnun fer með mig, eða ráðuneytið, það verður alltaf miklu betra en meðferðin sem ég fæ í mínu heimalandi. Ég vil bara vera hérna,“ segir hann.

Ghasem fór í tíu daga hungurverkfall í apríl og var í þrígang fluttur á sjúkrahús. Málið vakti mikla reiði og fjöldi fólks mótmælti við Innanríkisráðuneytið og ritaði nafn sitt á undirskriftarlista honum til stuðnings. 

Í úrskurði Innanríkisráðuneytisins, sem var birtur Ghasem í gær kemur fram að þörf sé á að endurskoða m álið vegna aldurs hans, en hann er fæddur árið 1994 og hefur verið flóttamaður frá fimmtán ára aldri. 

Athygli vekur að mál Ghasems er þriðja málið á skömmum tíma þar sem Innanríkisráðuneytið breytir úrskurði Útlendingastofnunar í kjölfar mótmæla og fjölmiðlaumræðu. Úrskurði um brottvísum kólumbískrar konu á sjötugsaldri, dóttur hennar og sjö ára barnabarni var snúið mars og í maí var brottvísun nígerískrar konu, sem gift er íslenskum manni, frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×