Erlent

Bretaprins í bobba - líkti Pútín við Hitler

Karl Bretaprins þykir ekki með orðheppnari mönnum.
Karl Bretaprins þykir ekki með orðheppnari mönnum. vísir/afp
Karl Bretaprins er í vandræðum eftir ummæli sem hann er sagður hafa látið falla í Kanada á dögunum. Prinsinn var að heimsækja safn eitt í Nova Scotia og þar hitti hann Marienne Ferguson, sem hafði flúið til Kanada frá Póllandi í Seinni Heimstyrjöldinni.

Ferguson fullyrðir að prinsinn hafi sagt sér að athafnir Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta upp á síðkastið, minni um margt á ódæðisverk Adolfs Hitler leiðtoga Þriðja ríkisins á stríðsárunum.

Talsmenn prinsins tjá sig ekki um málið og vísa í að samtal þeirra hafa verið undir fjögur augu en málið þykir hið vandræðalegasta, ekki síst í ljósi þess að Karl mun hitta Pútín í Frakklandi í næsta mánuði þar sem innrásarinnar í Normandy verður minnst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×