Erlent

Khodorkovsky ræður vesturlöndum frá því að beita Rússa þvingunum

Rússneski andófsmaðurinn Mikhail Khodorkovsky, sem eitt sinn var á meðal ríkari mönnum heims, áður en hann féll í ónáð hjá Pútín forseta, hvetur Vesturlönd til að láta af viðskiptaþvingunum vegna deilunnar um Úkraínu.

Khohodorkovsky var nýlega sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið af sér tíu ára dóm. Hann er nú í útlegð í Sviss og í viðtali við bresku fréttastofuna BBC segir hann að Vesturlönd séu að gera mistök með því að beita viðskiptaþvingunum gegn Rússum. Þær aðgerðir komi engum til góða, nema þjóðernissinnum í Rússlandi sem vilji einangra landið frá Evrópu.

Khodorkovsky segir það mun vænlegri leið fyrir Evrópusambandið að aðstoða Úkraínu við að ná jafnvægi og takist það gætu áhrifin af því leitt til breytinga í Rússlandi.Hann bendir á að Pútín virðist ekki hafa eins sterk tök á aðskilnaðarsinnum í Úkraínu eins og áður var talið en á dögunum urðu þeir ekki við beiðni hans um að fresta atkvæðagreiðslu um aukna sjálfstjórn í austurhluta landsins. Því væri færi fyrir Vesturlönd að aðstoða stjórnvöld í Úkraínu við að koma á lögum og reglu í landinu og það myndi á móti draga úr völdum Pútíns á svæðinu.

Með því að beita viðskiptaþvingunum væri hinsvegar aðeins verið að fylkja rússneskum almenningi að baki Pútín, sem hefur aldrei verið vinsælli , að því er kannanir gefa til kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×