Erlent

"Bráðnaði maðurinn“ vill ekki þiggja læknishjálp

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Mannan Mondal þjáist af mjög sjaldgæfum erfðagalla.
Mannan Mondal þjáist af mjög sjaldgæfum erfðagalla.
Hinn fimmtugi Mannan Mondal, frá Indlandi, neitar að fara í lýtaaðgerð til að fjarlæga stórt æxli sem kemur út úr andliti hans vegna þess að dóttir hans er að fara að gifta sig.

Hann þjáist af mjög sjaldgæfum erfðagalla sem veldur því að góðkynja æxli vaxa víða um líkamann. Æxlin hafa stækkað eftir því Mondal hefur elst.

Mondal er kallaður „bráðnaði maðurinn“ á Indlandi, því fólki finnst andlitið á honum líta út eins og hann sé að bráðna. Hann vantar annað augað og augntóftina, tennur og eyra. Hann hefur reynt eftir fremsta megni að lifa eðlilegu lífi. Hann á fjögur börn og hefur verið giftur í 32 ár. Hann er stéttleysingi. Hann býr í tjöldum ásamt fjölskyldu sinni.

Hér má sjá hann betla.
Eftir að fjölmiðlar á Indlandi byrjuðu að fjalla um hann fyrir skömmu hafa læknar stigið fram og boðist til þess að framkvæma aðgerðir á honum og fjarlæga æxlin. Dr. Ajay Kashyap, lýtalæknir í borginni Gurgaon, hefur boðið Mondal ókeypis aðgerðir til að létta honum lífið.

Mondal segist ekki þora að þiggja boðið því hann óttast að missa tekjur. Hann er betlari og er viss um að hann fái minna í sinn hlut ef hann fari í lýtaaðgerðir. Hann þénar um þúsund krónur á dag.

Dóttir hans er að fara að gifta sig á næstunni og Mondal þarf að borga fyrir brúðkaupið. Hann segist ekki mega við því að missa neinar tekjur þessa stundina. „Það sem ég þéna er rétt nóg til að brauðfæða fjölskylduna. En ofan á það kemur brúðkaupið. Það þarf að kaupa ýmislegt vegna þess og ég má ekki við tekjuskerðingu.“

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um Mondal. Hann lýsir viðhorfinu í hans garð í Indlandi. „Fólk kemur ekki vel fram við mig. Því finnst ég vera ógeðslegur,“ segir hann meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×