Erlent

Ofurgyltan Esther og eigendur vilja bjarga fleiri svínum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gælugyltan Esther er vinsæl.
Gælugyltan Esther er vinsæl.
Gælugyltan Esther hefur breytt lífi eigenda sinna til muna. Gyltan sem vegur rúm 240 kíló er orðinn miðpunktur heimilislífsins. Eigendurnir, Derek Walter og Steve Jenkins sem eru frá Toronto í Kanada, tóku hana að sér fyrir tæpum tveimur árum þegar þeir fengu skilaboð í gegnum Facebook frá gamalli skólasystur.

Líf Jenkins og Walter hefur breyst til muna. Þeir eru nú orðnir grænmetisætur og eru farnir að safna fyrir jörð svo þeir geti bjargað fleiri svínum.

Hún hefur verið nefnd Esther The Wonder Pig, eða Ofurgyltan Esther.

Facebookskilaboðin afdrifaríku

Skólasystirin sem áður átti Esther útskýrði fyrir þeim Jenkins og Walther að hún gæti ekki átt gyltuna lengur, því hundarnir hennar tóku hana ekki í sátt. Skólasystirin fyrrverandi sagði Esther vera smásvín, hún myndi aldrei ná fullri stærð. Hún átti aldrei verða þyngri en 35 kíló.

Walter og Jenkins slógu til og tóku Esther að sér, enda miklir dýravinir.

Þeir fóru með hana til dýralæknis sem sagði þeim að Esther væri venjulegt svín, myndi verða stór og þung.

„Við vorum þá þegar orðnir ástfangnir af henni. Við ákváðum bara að bíða og sjá hvað myndi gerast. En eftir því sem við áttum hana lengur stækkaði hún og stækkaði,“ útskýrir Jenkins. Átta mánuðum seinna var Esther orðin 70 kíló. Hún hélt áfram að stækka og þyngjast og er nú orðinn vel á þriðja hundrað kíló.

Jenkins og Walter eru hættir að fara með hana út að labba. „Við skulum alveg hafa hlutina á hreinu. Ef við færum út með hana og hana langaði að hlaupa um, þá væri ekkert sem við gætum gert. Hún er það sterk.“

Þeir eiga tvo hunda og tvo ketti. Öll dýrin í stofunni eru vinir. Þau eyða deginum saman í mesta bróðerni. „Fyrst voru hundarnir að atast í henni, en eru nú búnir að taka hana í sátt,“ útskýrir Jenkins. Esther sefur í sínu eigin rúmi, en eyðir deginum oft upp í rúmi Walter og Jenkins.

Þeir reyna nú að safna pening á netinu, í gegnum fjáröflunarsíðu. Þeir vilja bjarga fleiri svínum og ætla að kaupa jörð og reisa svínastíu fyrir önnur svín eins og Esther. Þeir stefna á að ná 50 milljónum króna og eiga enn nokkuð í land, eru komnir með um 20 milljónir inn á reikninginn sinn. Þeir eru einnig með vinsæla Facebook-síðu sem hefur fengið 140 þúsund „like“.

Hér að neðan má sjá myndband þar sem Esther fer í bað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×