Innlent

700 fundir hjá ríkissáttasemjara á árinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá undirritun kjarasamning sjúkraliða og félaga í SFR í liðinni viku.
Frá undirritun kjarasamning sjúkraliða og félaga í SFR í liðinni viku. VISIR/VILHELM
Mikið annríki hefur verið hjá embætti ríkissáttasemjara það sem af er árinu.

Fréttir af kjaradeilum hafa verið fyrirferðamiklar og ekki líður sá dagur sem ekki berast fréttir af samningafundum úr húsakynnum sáttasemjara.

Nú hafa starfsmenn embættisins lauslega tekið saman fjölda funda á árinu og telst þeim til að þeir séu tæplega 700 frá áramótum.

Þrátt fyrir að þessi talning sé ekki eftir hávísindalegum aðferðum er þó ýmislegt áhugavert sem má lesa úr þessum fundafjölda.

Til að mynda má áætla að embættið hafi haldið utan um að meðaltali fimm fundi á hverjum einasta degi á þessu ári.

Lengd fundanna er mismunandi, sumir standa einungis yfir í um klukkustund en aðrir hafa jafnvel orðið sólahrings langir, rétt eins og raunin varð með fund Sjúkraliðafélag Íslands í liðinni viku.

Aðspurður um hvort þetta sé mesta annríki sem ríkissáttasemjari muni eftir segir starfsmaður embættisins í samtali við Vísi óvarlegt að áætla það að svo stöddu, enda einungis liðnir rúmir fimm mánuðir af árinu.

Árið 2011 voru samningafundir 1400 talsins - um fjórir fundir daglega - og ljóst er að ef sama annríki heldur áfram hjá embættinu verða fundir ársins í ár um 1750.

Flugfreyjufélag Íslands hefur verið einna duglegast að funda frá áramótum en félagið hefur reitt sig á aðstöðu sáttasemjara 17 sinnum það sem af er ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×