Innlent

Sniðganga lög og reglur til að koma Guðna í oddvitasætið

Höskuldur Kári Schram skrifar
Guðrún Bryndís Karlsdóttir
Guðrún Bryndís Karlsdóttir
Guðrún Bryndís Karlsdóttir sem skipar annað sætið á lista framsóknarmanna í Reykjavík segir að lítill hópur innan flokksins hafi ákveðið að sniðganga lög og reglur til að fá Guðna Ágústsson í oddvitasætið. Hún segir að ítrekað hafi verið þrýst á sig að hætta og segir að sá listi sem sé í undirbúningi snúist um gamaldags stjórmál og þrönga hagsmuni.

„Þetta er eitthvað framboð sem er framhjá í raun og veru öllum samþykktum flokksins og þetta er eitthvað sem hefur gerst á bak við tjöldin,“ segir Guðrún.

Ertu þá að segja að þetta sé ekki í samræmi við lög og reglur flokksins? „Mér skilst það á öllum sem hafa haft samband við mig. Ég var kosin í annað sætið sem er sæti staðgengils oddvita og þannig hefði vinnan átt að halda áfram í samráði við mig. Það hefur ekki verið haft samband við mig síðan Óskar axlaði ábyrgð.“

Guðrún segir að sá listi sem sé í undirbúningi snúist ekki um hagsmuni borgarbúa. „Mér sýnist hann vera gamaldags stjórnmál. Það eru þessi samningasambönd, þessar klíkumyndanir og loðin samskipti eða engin samskipti og óljóst hvað er um að vera. Það er verið að sníða reglurnar til þess að ná fram einhverju markmiði sem er ekki endilega fyrir borgarbúa heldur eiginhagsmuni.“

Guðrún segir að ítrekað hafi verið þrýst á hana að hætta og draga framboð sitt til baka. Hún vill þó ekki segja hverjir það eru en segir að meðal annars hafi verið vísað í reynsluleysi hennar í stjórnmálum og henni sagt að hún falli ekki inn í hópinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.