Erlent

Nýjar gervihnattamyndir sýna mögulegt flugvélabrak á floti

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Frá leitinni í Indlandshafi.
Frá leitinni í Indlandshafi. vísir/afp
Samgönguráðherra Malasíu greindi frá því í dag að frönsk stjórnvöld hefðu birt nýjar gervihnattarmyndir sem sýndu eitthvað sem gæti verið flugvélabrak á floti í suðurhluta Indlandshafi. Þar fer nú fram umfangsmikil leit af malasísku farþegaflugvélinni sem hvarf með 239 manns innanborðs fyrir rúmum hálfum mánuði.

Átta leitarflugvélar, búnar öflugum leitarbúnaði, voru sendar af stað í morgun til viðbótar þeim sem þegar fljúga yfir leitarsvæðinu.

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í morgun að aukin von væri um að hægt yrði að komast að örlögum flugvélarinnar vegna gervihnattamyndanna. Þá komu leitarmenn í einni af flugvélunum auga á fljótandi hluti í dag, þar á meðal trébretti. Abbott segir þetta vera í fyrsta sinn sem leitarmenn sjái með berum augum hluti í hafinu á leitarsvæðinu. Ekki er ljóst að svo stöddu hvort hlutirnir séu þeir sömu og gervihnattarmyndir hafa sýnt.

Malasísk stjórnvöld telja að flugvélinni MH360 hafi vísvitandi verið snúið af leið. Ef hlutirnir sem sést hafa á gervihnattamyndum síðustu daga reynast vera brak flugvélarinnar, bendir allt til þess að það sé raunin, þar sem svæðið er langt frá áætlaðri flugleið vélarinnar - sem fór frá Kúala Lúmpúr áleiðis til Peking þegar hún hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×