Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, var nú rétt í þessu að greina frá því að samkomulag hefur tekist milli þingflokksformanna um fyrirkomulag á þinghaldi, en það hefur verið í hnút vegna óánægju stjórnarandstöðunnar hvernig til stóð að afgreiða þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um tafarlaus slit á viðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Niðurstaðan er á þá leið, líkt og Vísir greindi frá fyrir stundu, að fara mun fram umræða um skýrsluna sem fram hefur verið lögð um aðildarviðræðurnar og þá mun Gunnar Bragi mæla fyrir ályktun sinni. Fulltrúi hvers flokks um sig fær svigrúm til ræðuflutnings og andmæla. Við svo búið verður málinu vísað til framhaldsumræðu sem fram mun fara 10. mars.
Til stóð að hefja þingfund klukkan 13:30 en honum var ítrekað frestað. Þingmenn streyma nú, í þessum orðum rituðum, í ræðupúlt á þingi og lýsa yfir ánægju sinni með þessar lyktir mála og framgöngu forseta.
Einar K heggur á hnútinn
Jakob Bjarnar skrifar
