Innlent

„Hefði aldrei fengið þessa viðurkenningu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún segir að gildi viðurkenningarinnar hafi rýrnað við nýjar upplýsingar.
Guðrún segir að gildi viðurkenningarinnar hafi rýrnað við nýjar upplýsingar. visir/gva
„Við hjá Stígamótum erum vissulega mjög leiðar yfir þessu og urðum fyrir miklum vonbrigðum,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, í samtali við Vísi í kvöld.

Söngkonan Hafdís Huld Þrastardóttir ræddi opinskátt um einelti sem hún hafi orðið fyrir á netmiðlum í Kastljósi á Rúv í kvöld. Sagði Hafdís Hildi Lilliendahl hafi farið þar fremst í flokki. Hildur hefur í gegnum tíðina verið róttækur femínisti og barist ötullega fyrir réttindum kvenna. Hún hefur hlotið viðurkenningar frá Stígamótum fyrir baráttu sína.

„Mér fannst Hafdís Huld hugrökk í Kastljósinu og skilaði hún ábyrgðinni á þann stað sem hún á heima.“

Guðrún segir að verðlaunin sem slík skipti litlu máli í þessu samhengi.

„Okkur grunaði ekki að Hildur Lilliendahl hagaði sér svona sjálf þegar við veittum henni þessa viðurkenningu. Það segir sig sjálft að hefði okkur grunað að hún hefði gerst sek um hatursfulla umræðu á netinu þá hefðum við aldrei veitt henni viðurkenninguna.“

„Með því að hafa gengist við þessum ummælum þá dæmir hún sig í raun og veru bara sjálf,“ segir Guðrún.

„Það hefði litið allt öðruvísi út ef við hefðum veitt henni þessa viðurkenningu vitandi að hún hagaði sér svona sjálf. Þá hefði það verið mjög vítavert. Viðurkenningin gekk út á það að heiðra konu sem þætti svona framkoma óþolandi. Gerist hún sjálf sek um slíka framkomu er það jafn óþolandi,“ segir Guðrún sem ítekar að viðurkenningin sé algjört aukaatriði. Gildi hennar hafi þó vissulega rýrnað við nýjar upplýsingar.

„Hvort viðurkenningin verði tekin til baka eða ekki finnst mér í raun og veru engu breyta.“

Hafdís Huld leitaði til Stígamóta haustið 2012 rétt eftir að Hildur hafði fengið hugrekkisverðlaun Stígamóta.

„Hún var að færa okkur fréttir sem við höfðum ekki hugmynd um og þetta voru mikil vonbrigði.“

Hildur sagðist í samtali við Vísi í kvöld aldrei hafa haldið því fram að hún væri einhver engill. Viðtalið í heild sinni má sjá hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×