Innlent

Krefja Hönnu Birnu um svör varðandi lekamálið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir hafa sent innanríkisráðherra formlega fyrirspurn varðandi lekamálið.
Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir hafa sent innanríkisráðherra formlega fyrirspurn varðandi lekamálið. visir/samsett
Alþingismennirnir Mörður Árnason og Valgerður Bjarnadóttir hafa sent Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, formlega fyrirspurn varðandi lekamálið.

Grunur er um hvort innanríkisráðuneytið hafi lekið persónuupplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla.

Þingmennirnir krefjast þess að fá svör hvort umrætt minnisblað sé til og ef svo er, hverjir hafi fengið það.

Spurt er um hvort minnisblaðinu hafi verið dreift til undirstofnana eða félagasamtaka, svo sem Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Rauða krossins, og til lögmanna þeirra sem eru nafngreindir í minnisblaðinu.

Ef minnisblaðið er ekki til í ráðuneytinu, hvaða gögn séu þá til um málið í innanríkisráðuneytinu.

Þingmennirnir vilja jafnframt fá svör við því hvað hafi verið til skoðunar í rannsókn ráðuneytisins á meintum leka og hver hafi haft forstöðu í þeirri rannsókn.

Einnig er spurt um hvort það hafi komið til álita að óska eftir óháðri rannsókn á því hvernig persónuupplýsingar um hælisleitandann og tvær nafngreindar konur komust úr trúnaðargögnum í hendur almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×