Erlent

Tjónið í Lærdal nemur rúmum tveimur milljörðum

Stórt svæði í bænum er brunnið til kaldra kola.
Stórt svæði í bænum er brunnið til kaldra kola. Vísir/AFP
Tjónið af völdum brunans í Lærdal í Noregi þar sem tuttugu og þrjár byggingar og þar af sextán íbúðarhús brunnu til grunna um helgina, nemur sennilega rúmlega hundrað milljónum norskra króna, eða um tveimur milljörðum íslenskra króna.

Enn er óljóst hvað olli eldsvoðanum en norska öryggislögreglan hefur verið fengin til aðstoðar til þess að komast til botns í málinu. Öflug vakt er á svæðinu enda er talin mikil hætta á að eldurinn blossi upp að nýju.

Níutíu manns þurftu að leita sér hjálpar á sjúkrahúsi vegna reykeitrunar en enginn slasaðist þó alvarlega. Hinsvegar hafa að minnsta kosti sextán fjölskyldurr í bænum misst allt sitt og hafa Norðmenn verið snöggir til að rétta hjálparhönd.

Ung stúlka í bænum ákvað að hefja fatasöfnun í gær fyrir fjölskyldurnar og á nokkrum klukkutímum var komið svo mikið af fatnaði að hún getur ekki tekið við fleiri flíkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×