Erlent

Eiturlyfjabarón segir lögregluna hafa leyft sér að smygla

Vitnisburður Zambada-Niebla hefur vakið alheimsathygli.
Vitnisburður Zambada-Niebla hefur vakið alheimsathygli. Vísir/afp
Margir hafa leyft sér að efast um vitnisburð háttsetts aðila mexíkósku glæpasamtakana Sinaloa, sem sagði frá samningi samtakanna við Fíkniefnalögreglu Bandaríkjanna (DEA). Mexíkóska dagblaðið Universal greindi upphaflega frá málinu. 

Grein Universal er byggð á vitnisburði Jesus Vicente Zambada-Niebla, sem er háttsettur innan Sinaloa samtakanna og sonur Ismael Zambada, leiðtoga samtakanna.

Fjöldi fjölmiðla greip fréttina á lofti og hefur mikið verið fjallað um málið síðan fréttin kom fram. En eftir nánari eftirgrennslan eru margir farnir að efast um vitnisburðinn. Til dæmis hafa menn bent á að Zambada-Niebla hafi setið inni síðan árið 2009, en hann fullyrti  að Sinaloa samtökin hafi verið látin í friði frá 2000 til 2012. Hafa menn velt vöngum yfir því af hverju einn háttsettasti aðili samtakanna hafi verið fangelsaður svo lengi, ef samningurinn hafi í raun verið í gildi. Hann tjáði sig einnig um aukin umsvif samtakana frá árinu 2006 til 2012, en menn efast um að hann geti dæmt um það, hafandi setið inni.

Málið er í það minnsta athyglisvert. Svo virðist sem einhverskonar samstarf hafi verið á milli Zambada-Niebla og bandarísku fíkniefnalögreglunnar. En ef horft er á starfshætti lögreglunnar, þykir ólíklegt að gjörvöll Sinaloa samtökin hafi fengið að starfa óáreitt í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×