Erlent

Obama kynnir nýjar njósnareglur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama kynnti breytingarnar í ræðu í dag.
Barack Obama kynnti breytingarnar í ræðu í dag. Nordicphotos/AFP
„Við getum ekki einhliða afvopnað leyniþjónustustofnanir okkar,” sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti um leið og hann kynnti nýjar reglur um njósnastarfsemi Bandaríkjanna.

Breytingarnar fela meðal annars í sér strangara eftirlit með starfsemi leyniþjónustunnar og strangari reglur um söfnun upplýsinga, meðal annars um símtöl einstaklinga.

Ein breytingin er sú að leyniþjónustan fær ekki aðgang að þeim upplýsingum, sem safnað hefur verið, nema með dómsúrskurði eða ef um „raunverulegt neyðarástand” er að ræða.

Jafnframt tók hann fram að hin víðtæka söfnun upplýsinga um símtöl og fleira muni halda áfram, en sú breyting verði gerð að stjórnvöld muni ekki lengur geyma þessar upplýsingar hjá sér. Enn eigi þó eftir að útfæra það, hvernig upplýsingarnar verði geymdar.

„Þetta er öflugt verkfæri,” sagði hann um þessa víðtæku upplýsingasöfnun, „en opinber söfnun og geymsla upplýsingabálka af þessu tagi býður einnig upp á misnotkun.”

Í ræðu sinni nefndi hann í fyrsta sinn á nafn uppljóstrarann Edward Snowden, þakkaði honum að vísu alls ekki fyrir uppljóstranirnar en sagði að umræðan, sem hófst eftir að leyniskjölin frá Snowden tóku að birtast í fjölmiðlum muni styrkja Bandaríkin.

Breytingarnar ganga engan vegin jafn langt og gagnrýnendur Bandaríkjanna hafa krafist, en í ræðu sinni varði Obama harðlega starfsemi leyniþjónustunnar og sagði sum erlend ríki hafa „gert sér upp undrun” þegar í ljós kom að Bandaríkin hafa stundað víðtækar njósnir um heim allan. Þau sjálf hafi gert slíkt hið sama.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×