Erlent

Fjölskylda Mikaeels miður sín

Hrund Þórsdóttir skrifar
Móðir litla drengsins, sem hvarf frá heimili sínu í Edinborg á miðvikudaginn og fannst látinn í fyrrakvöld, hefur verið ákærð fyrir aðild að láti drengsins. „Við erum niðurbrotin,“ segir systir hennar og eigandi hússins þar sem líkið fannst.

Mikaeel Kular var þriggja ára gamall. Fjölskylda hans tilkynnti á fimmtudagsmorguninn að hann væri horfinn og hófst þegar víðtæk leit að honum í Fife héraði í Skotlandi, með þátttöku yfir 200 sjálfboðaliða auk lögreglu og strandgæslu. Í fyrstu var ekki vitað hvort hann hefði farið eitthvert af sjálfsdáðum eða hvort saknæmt athæfi hefði átt sér stað, en móðir hans hélt því fram að hún hefði komið drengnum í háttinn á miðvikudagskvöldið en síðan hefði hann ekki verið í rúmi sínu morguninn eftir. Lík hans fannst svo á föstudagskvöldið á lóð við hús í bænum Kirkcaldy, skammt frá Edinborg, en húsið er í eigu móðursystur hans.

Móðirin, Rosdeep Kular, er 33 ára og móðir fimm barna undir tíu ára aldri. Áður en hún flutti til Edinborgar bjó hún í húsi systur sinnar með börnum sínum og er haft eftir sjónarvottum að fyrr í vikunni hafi hún verið verið þar ein á ferli. Skömmu eftir líkfundinn var hún handtekin og var hún yfirheyrð í allan gærdag. Jafnframt var gerð ítarleg rannsókn á vettvangi.

Móðirin hefur nú verið ákærð, grunuð um aðild að láti drengsins og verður hún leidd fyrir dómara í Edinborg á morgun.

„Við höfum misst hann og erum niðurbrotin,“ sagði móðursystirin í viðtali við Daily Mail. Hún hafði ekki rætt við systur sína en hin börnin fjögur, tvær systur og tveir bræður Mikaeels litla, þar á meðal tvíburi hans, dvelja nú hjá þessari frænku sinni. Í Daily Mail kemur jafnframt fram að Mikaeel hafði ekki sést á leikskóla sínum í næstum heilan mánuð vegna veikinda.

Mikil sorg ríkir í Fife héraði í Skotlandi vegna málsins og mættu mörg hundruð manns á minningarathöfn um Mikaeel litla í gærkvöldi. Margir hafa líka lagt leið sína að heimili hans og húsinu þar sem hann fannst látinn og skilið þar eftir blóm, bangsa og logandi kerti. Lögreglu hafa borist yfir 500 símtöl frá almennum borgurum sem telja sig hafa upplýsingar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×