Innlent

Humar í landvinningum stækkar heimkynni sín

Svavar Hávarðsson skrifar
Staða humarstofnsins er bærileg en áhyggjur eru af magni smáhumars.
Staða humarstofnsins er bærileg en áhyggjur eru af magni smáhumars. Mynd/Óskar
Hafrannsóknastofnun segir áhyggjuefni hversu lítið fékkst af smáum humri í nýafstöðnum árlegum humarleiðangri.

Svo virðist sem útbreiðslusvæði humars hafi farið stækkandi vestur af landinu með hækkandi hitastigi, en haustið 2012 veiddist humar í fyrsta sinn í Ísafjarðardjúpi sem talinn er hafa borist þangað með náttúrulegum hætti.

Stofnvísitala humars mældist rétt undir meðaltali síðasta aldarfjórðungs og hefur farið lækkandi eftir metmælingu árið 2008. Alls voru gerðar mælingar á 55 stöðvum frá Jökuldjúpi austur í Lónsdjúp.

Í frétt Hafró segir að tog hafi verið tekið á nýjum slóðum þar sem veiði á humri tekur nú til nýrra svæða. Veiddust um 70 tonn í Grindavíkurdýpi í fyrrasumar, þar sem ekki voru gjöful mið áður.

Síðar í sumar á að fara í Kolluál, úti fyrir Snæfellsnesi, til að kortleggja útbreiðslusvæði humars, sem hefur fengist þar í auknum mæli sem meðafli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×