Matthías Rögnvaldsson, oddviti L-listans verður nýr forseti bæjarstjórnar Akureyrar og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, verður formaður Bæjarráðs. Logi Már Einarsson, þriðji oddvitinn í nýjum meirihluta, verður formaður Akureyrarstofu.
Í samkomulaginu kemur fram að bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, verður endurráðinn af nýjum meirihluta. L-listinn réð hann til starfa fyrir fjórum árum þegar framboðið fékk hreinan meirihluta í kosningunum 2010.

Nýr meirihluti vill leggja áherslu á langtíma áætlunargerð um örugga og ábyrga fjármálastjórn og forgangsröðun verkefna. Hann vill auka fjölbreytni atvinnulífsins og beita sér fyrir frekar samvinnu skóla og atvinnulífs. Einnig vill hann auka tækifæri starfsmanna bæjarins til starfsþróunar og endurmenntunar.
Í samstarfssamninginum er talin þörf á að auka fjármagn til uppbyggingar skóla og velferðarmála og við gerð fjárhagsáætlana verði miðað að því að styrkja þessa þætti rekstursins ásamt því að jafna stöðu bæjarbúa.