Innlent

Samið um sjúkraflutninga

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nýi samningurinn um sjúkraflutninga staðfestur.
Nýi samningurinn um sjúkraflutninga staðfestur. fréttablaðið/Gva
Í nýjum samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, SHS, um sjúkraflutninga, sem undirritaður var í gær, segir að greiðslur fyrir þjónustuna taki að hluta til mið af fjölda sjúkraflutninga í stað eingöngu fastra mánaðarlegra greiðslna áður. Þannig felst greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala annars vegar í föstum mánaðarlegum greiðslum og hins vegar í greiðslum fyrir hvern flutning. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi sjúkraflutninga verði um 23 þúsund á ári.

Samningurinn um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, sem er til sex ára, er gerður á grundvelli fjárveitinga til verkefnisins og byggir að meginstofni á bráðabirgðasamningi um sjúkraflutninga sem gerður var í sumar. Hann tekur til allra bráðaflutninga auk flutninga fyrir Landspítala og aðrar stofnanir, að því er segir í fréttatilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands.

Þar segir jafnframt að samhliða undirritun samningsins hafi verið gengið frá samkomulagi um sérstakt uppgjör vegna þjónustu SHS frá 1. janúar 2012 til 30. júní 2014. SHS sinnti á þessu tímabili sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að enginn samningur hafi þá verið í gildi um þjónustuna. Með samkomulaginu verður fellt niður dómsmál sem SHS hafði höfðað gegn íslenska ríkinu vegna greiðslna fyrir þjónustu á fyrrgreindu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×