Erlent

Tvær bandarískar konur dæmdar vegna hryðjuverka

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
LaRose hlaut tíu ára fangelsisdóm en saksóknarar fóru fram á 20 ára dóm.
LaRose hlaut tíu ára fangelsisdóm en saksóknarar fóru fram á 20 ára dóm.
Tvær bandarískar konur, Jamie Paulin Ramirez og Colleen LaRose, voru dæmdar í fangelsi í vikunni fyrir þátttöku sína með hryðjuverkasamtökunum al Qaeda. Þær fluttu báðar frá Bandaríkjunum til Írlands til þess að vera með hópnum. Reuters segir frá.

Konurnar eru báðar hvítar og ljóshærðar og var það von samstarfsmanna þeirra í hryðjuverkahópnum að vestrænt útlit þeirra auk bandarískra vegabréfa myndi auðvelda þeim að fremja hryðjuverk.

LaRose gekk til liðs við hópinn á undan og fékk Ramirez til liðs við þau árið 2009 en þær kynntust á netinu. Ramirez flutti frá Colorado í Bandaríkjunum til Írlands tveimur mánuðum eftir að þær kynntust á netinu. Hún lét fjölskyldu sína ekki vita hvert hún ætlaði en tók með sér sex ára gamlan son sinn.

LaRose hlut tíu ára dóm fyrir sinn þátt í skipulagningu á morði á sænskum listamanni sem móðgaði múslima með því að teikna mynd af höfði spámannsins Múhamed á líkama hunds. Hin konan var ekki beinn þátttakandi í skipulagningu morðsins en hún játaði að hafa tekið þátt í að afla ganga og efnis vegna málsins.

Saksóknarar fóru fram á 20 ára dóm yfir LaRose og tíu ára dóm fyrir Ramirez en hún hafði leyft leiðtoga hópsins að þjálfa ungan son til þess að beita ofbeldi. Á myndbandi sem sýnt var fyrir dómi sést hvar konan lætur son sinn klæðast skikkju og bera leikfangabyssu. Hún segir svo við son sinn að ráðast á þá trúlausu og hann tekur í gikkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×