Innlent

Pilsner platað inn á útlendinga sem bjór sé

Jakob Bjarnar skrifar
Í Krambúðinni við Skólavörðustíg er ferðamönnum bent á að ekki tíðkist að selja áfengi í matvöruverslunum.
Í Krambúðinni við Skólavörðustíg er ferðamönnum bent á að ekki tíðkist að selja áfengi í matvöruverslunum.
Í Krambúðinni við Skólavörðustíg hefur verið komið upp sérstöku skilti þar sem ferðamönnum er bent á að þar sé ekki til sölu bjór.

Valdís Hrönn er verslunarstjóri í Krambúðinni við Skólavörðustíg og hún segir ástæðuna einfaldlega þá að margir verslunareigendur geri hreinlega út á þekkingarleysi og prangi pilsner inn á útlendinga sem bjór sé. Hún segir mjög algengt að fólk standi í þeirri meiningu að um áfengi sé að ræða, en í Krambúðina kemur straumur ferðamanna enda býður staðsetning búðarinnar uppá það.

Kælir í verslun 10/11 í Austurstræti. Myndin var tekin í sumar.Vísir/KTD
„Þau átta sig ekkert á þessu, enda óvön því að geta ekki keypt slíkan varning í matvöruverslunum. Jájá, það er verið að gera út á þennan misskilning víða. Hingað hefur fólk verið að koma og spyrja sérstaklega út í þetta. Einn sem kom í síðustu viku og spurði hvort við værum nokkuð með áfengi? Hann sagðist hafa keypt tvær kippur í matvöruverslun, hann drakk og drakk og fann ekkert á sér,“ segir Valdís Hrönn.

Hún vill ekki standa í blekkingarleikjum gagnvart erlendum gestum.

„Við viljum frekar segja fólki satt og teljum að það leiði til hollustu við okkur. Skapa traust. Að sjálfsögðu. Þó útlendingar séu hér aðeins í fáeina daga, þá eru meiri líkur á að þeir komi aftur til baka ef það er ekki verið að hafa þá að féþúfu eða ljúga í þá. Við viljum frekar fara þá leiðina en snuða fólk,“ segir Valdís Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×