Innlent

Kveikt á Stefnumótastaurnum í Keflavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Björgvin Halldórs og Maggi Kjartans við Stefnumótastaurinn.
Björgvin Halldórs og Maggi Kjartans við Stefnumótastaurinn. Aðsend mynd
Kveikt var á Stefnumótastaurnum á horni Hafnargötu og Tjarnargötu á Ljósanótt í Keflavík í dag. Staurinn á rætur sínar að rekja til lags Magnúsar Kjartanssonar, Skólaball, sem hljómsveitin Brimkló flutti á sínum tíma.

Í tilkynningu segir að sagan segir að Magnús og vinur hans hafi verið skotnir í sömu stelpunni á skólaárum sínum eins og gengur og gerist.

„Á skólaballi sá Magnús á eftir vininum og stúlkunni læðast í burtu en sjálfur gekk hann særður út í nóttina. Hann kom sér síðan fyrir í skoti nálægt heimili hennar og beið átekta. Stúlkan birtist loks en var snöktandi og hallaði sér upp að ljósastaurnum umrædda. Magnús tók þá á sig rögg, fór til stúlkunnar og huggaði og til að gera langa sögu stutta þá eru þau Magnús hjón enn þann dag í dag“

Nú hefur verið settur upp stór og mikill tréljósastaur frá þessum árum. Á honum má lesa um tilurð lagsins og texta og einnig er hægt að hlusta á brot úr laginu með því að ýta á hnapp.

Í tilkynningunni segir að Magnús hafi gaman af uppátækinu og hann vonist jafnvel til þess að þetta verði staður þar sem fólk fari á skeljarnar og beri upp bónorðið.

Sönghópur Suðunesja tók lagið við tilefnið en Magnús stýrir honum. Þá tók Björgvin Halldórsson einnig lagið við góðar undirtektir viðstaddra.

Magnús Kjartansson stendur hér við Stefnumótastaurinn.Mynd/Jóhannes K. Kristjánsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×