Innlent

Sautján ára ógnaði lögreglumanni með blóðugri sprautunál

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þrjú ungmenni, 17-19 ára, ákærð fyrir að hafa veist að lögreglumönnum og hótað þeim lífláti.
Þrjú ungmenni, 17-19 ára, ákærð fyrir að hafa veist að lögreglumönnum og hótað þeim lífláti. vísir/vilhelm
Ríkissaksóknari hefur ákært þrjú ungmenni, tvær stúlkur og pilt á aldrinum 17 til 19 ára, fyrir að hafa veist að lögreglumönnum, ógnað þeim með sprautunál og hótað þeim lífláti á leiksvæðinu Hjallavöllum við Efstahjalla í Kópavogi í júlí á síðasta ári.

Tveir lögreglumenn höfðu afskipti af ungmennunum á fyrrnefndum leikvelli fimmtudaginn 11.júlí 2013. Ungmennin fóru þó ekki að fyrirmælum lögreglu um að halda kyrru fyrir og reyndu að stinga lögreglu af.

Annarri stúlkunni, 17 ára, er gefið að sök að hafa slegið til og sparkað í átt að öðrum lögreglumanninum er hann reyndi að handtaka hana. Pilturinn, átján ára, er þá sagður hafa ógnað lögreglumönnunum báðum með blóðugri sprautunál og hótað að stinga þá með nálinni.

Hin stúlkan, 19 ára, er sögð hafa hvatt piltinn til að stinga lögreglumennina með nálinni og verið með líflátshótanir í garð þeirra. Þá er henni jafnframt gefið að sök að hafa í apríl í fyrra rifið í hár lögreglumanns og skömmu síðar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu bitið í hægri upphandlegg lögreglukonu. Konan hlaut í kjölfarið mar og bitfar á hægri olnboga og lögreglumaðurinn fann fyrir eymslum í hársverði.

Þingfesting í málinu fór fram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×