Erlent

Steikjandi hitar í Ástralíu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ástralir sækja þessa dagana mjög í sjóinn til að kæla sig.
Ástralir sækja þessa dagana mjög í sjóinn til að kæla sig. Nordicphotos/AFP

Meðan kuldakastið mikla gengur yfir vestra hafa Ástralir mátt búa við meiri hita en dæmi eru til um.

Veðurfræðingar spá allt að 50 stiga hita í dag á norðvesturströndinni, sem er strjálbyggð og stórskorin.

Síðasta ár varð hið heitasta í sögu Ástralíu og ekkert lát virðist ætla að verða á þeirri þróun. Frá 27. desember síðastliðnum hafa hitamet verið slegin á 24 stöðum í Ástralíu. Þannig komst hitinn í námubænum Narrabi, sem er í Nýja Suður-Wales, upp í 47,8 stig, en það er 3,6 gráðum hærra en áður hefur mælst þar.

Hitunum fylgir hætta á gróðureldum, en íbúarnir reyna að lifa þetta af með því að kæla sig í sjó eða sundlaugum.

„Við neyðumst til að lifa með þessu. Það er ekkert hægt að gera,” segir Gian Tate, sextug kona sem býr á afskekktum stað í Pilbara á norðvestanverðri Ástralíu. Stóran hluta dagsins situr hún í lítilli laug fyrir utan húsið sitt. Hitamælirinn heima hjá henni fór upp í 50 stig í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×