Fótbolti

Þrír varnarmenn Belga meiddir fyrir stórleikinn á morgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vincent Kompany er tæpur en gæti spilað.
Vincent Kompany er tæpur en gæti spilað. vísir/getty
Belgía mætir Bandaríkjunum í 16 liða úrslitum á HM annað kvöld en leikurinn fer fram á Arena Fonte Nova í Salvador.

Belgar eru í meiðslavandræðum fyrir leikinn, sérstaklega í varnarlínunni. VincentKompany glímir við nárameiðsli og ThomasVermaelen, sem skoraði sigurmarkið í lokaleik riðlakeppninnar gegn Suður-Kóreu, tognaði aftan í læri í leiknum.

Anthony Vanden Borre, sem kom inn í liðið gegn Suður-Kóreu, brákaðist á fótlegg og er úr leik það sem eftir lifir HM. Toby Alderweireld hefði þó alltaf komið inn í bakvörðinn fyrir hann.

Steven Defour, miðjumaðurinn öflugi, er í leikbanni eftir að fá rautt spjald gegn Suður-Kóreu þannig Axel Vitsel kemur aftur inn á miðjuna í stað hans.

Spurningamerki eru með sóknarleikinn hjá Belgum en RomeluLukaku hefur verið slakur á mótinu og er óvíst hvort hann fái enn eitt tækifærið. Wilmots gæti freistast til að byrja með ungstirnið Divock Origi uppi á topp.

Bandaríkjamenn eru í öllu betri málum. Jozy Altidore, framherjinn sem meiddist í fyrsta leik, er byrjaður að æfa aftur og heldur JürgenKlinsmann í veika von um að hann geti komið við sögu á morgun.

Annars eru allir heilir í bandaríska liðinu og enginn í leikbanni þannig Klinsmann hefur úr nær öllu sínu besta að velja fyrir þennan stórleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×