Innlent

Akureyringar gagnrýna val á staðsetningu sýslumanns

Sveinn Arnarsson skrifar
Akureyringar sætta sig ekki við að sýslumaður flytji til Húsavíkur.
Akureyringar sætta sig ekki við að sýslumaður flytji til Húsavíkur. fréttablaðið/pjétur
Akureyrarbær gagnrýnir boðaðar breytingar innanríkisráðuneytisins sem fela í sér að aðalskrifstofa sýslumanns færist til Húsavíkur. Akureyrarbær telur aðalskrifstofuna eiga heima á Akureyri sökum fjöldans sem þar býr. „Galin yfirlýsing,“ segir Friðrik Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings.

Hugmyndir innanríkisráðuneytisins fela í sér breytingar á sýslumannsembættum landsins. Aðalskrifstofa sýslumanns flyst frá Akureyri og verður staðsett á Húsavík. Hins vegar verða sýsluskrifstofur starfandi á Akureyri, Siglufirði og á Dalvík. Þetta er liður í að fækka sýslumannsembættum sem innanríkisráðuneytið tilkynnti fyrir stuttu.

Friðrik sigurðsson
Þetta sættir Akureyrarbær sig ekki við og hefur sent formlega athugasemd vegna þessa. Leggur Akureyrarbær áherslu á að aðalskrifstofa sýslumanns verði staðsett á Akureyri. „Ekki verður annað séð en að meginmarkmiðum verði best náð með því að staðsetja aðalskrifstofur sýslumanns á Akureyri. Þjónusta við borgarana er tryggð með því að hafa aðalskrifstofur á þeim stað þar sem mestur fjöldi íbúa er en Akureyri er langfjölmennasta sveitarfélagið í umdæminu,“ segir í athugasemd Akureyrarbæjar.

Friðrik minnir á að Akureyrarbær hafi ekki haft uppi sömu varnaðarorð þegar ákvörðun var tekin um flutning Fiskistofu frá höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er svartur blettur á norðlenska samvinnu sveitarfélaga,“ segir Friðrik. „Það orkar tvímælis að vilja fá stofnanir norður á Akureyri en berjast gegn því að stofnanir séu fluttar til Húsavíkur. Það sýnir að Akureyringar telja sig aðeins geta sótt þjónustu í aðra áttina.“

Hann segir þetta ekki vera gæfuspor í samskiptum sveitarfélaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×