Lífið

Úrslitin í Morfís ráðast

Lið Flensborgarskólans í Hafnarfirði er hér í góðum gír.
Lið Flensborgarskólans í Hafnarfirði er hér í góðum gír.
Úrslitin í mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskólanna fer fram í kvöld í Háskólabíói en þar mætast Menntaskólinn við Sund og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði. Í úrslitunum er umræðuefnið „Vopnaður friður?“. MS er með og Flensborg er á móti.

Fréttablaðið skellti símtali á liðsstjóra beggja liða til að kanna hvernig stemningin væri fyrir úrslitunum.

„Við erum í úrslitum annað árið í röð og höfum trú á okkur en vanmetum þó ekki andstæðinginn,“ segir Aron Kristján Sigurjónsson, liðsstjóri Flensborgarskóla, spurður um stemninguna fyrir úrslitunum.

„Okkur þykir það alls ekkert stressandi að Flensborg hafi farið í úrslitin á síðasta ári því við höfum þrisvar farið í úrslit á síðustu fimm árum. Við vitum að þetta eru krakkar sem kunna að keppa í Morfís og erum mjög spennt,“ segir Arnar Snær Magnússon, liðsstjóri MS, um stemninguna fyrir úrslitunum.



Lið Menntaskólans við Sund í miklu stuði.
Hvað ætla liðin að gera á úrslitadeginum? „Ræðumennirnir fara í sund en ég verð nú bara slakur heima, annars er ekkert sérstakt planað,“ segir Aron Kristján. „Við förum yfir gömlu, góðu rútínuna og hittumst upp úr hádegi. Við ætlum að borðum saman og eyðum deginum saman til að koma okkur í rétta gírinn,“ segir Arnar Snær.

Báðir liðsstjórarnir segja að stemningin sé mögnuð í skólunum vegna keppninnar og gera ráð fyrir góðri mætingu en ætla liðsmennirnir ekki að gera eitthvað flippað ef liðið vinnur Morfís, eins og að fá sér tattú? „Ég held við munum bara fagna vel og vandlega. Ég geri ekki ráð fyrir því að fólk fái sér tattú en það gæti þó alveg verið að Katrín stuðningsmaður taki tattúið á sig,“ segir Aron Kristján hress og kátur. „Það er ekkert planað hjá okkur ef við vinnum. Hins vegar gæti alveg verið að það fái sér einhver tattú ef við vinnum,“ segir Arnar Snær.

Flensborgarliðið sigraði MK, FB og MA á leið sinni í úrslitin.

Liðsstjóri: Aron Kristján Sigurjónsson

Frummælandi: Jón Gunnar Vopnfjörð Ingólfsson

Meðmælandi: Magni Sigurðsson

Stuðningsmaður: Katrín Ósk Ásgeirsdóttir

Lið MS sigraði ME, FS, ML og Verzló á leið sinni í úrslitin.

Liðsstjóri: Arnar Snær Magnússon

Frummælandi: Telma Sif Reynisdóttir

Meðmælandi: Elísa Líf Ingvarsdóttir

Stuðningsmaður: Sædís Ýr Jónasdóttir

Úrslitin fara fram í Háskólabíói í kvöld og hefjast klukkan 20.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.