Erlent

Félagsfræðikennari hetja í skotárásinni

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ástandið var skelfilegt fyrir utan skólann í gær.
Ástandið var skelfilegt fyrir utan skólann í gær. Vísir/AP
Skjót viðbrögð félagsfræðikennarans John Masterson eru talin hafa bjargað mannslífum, í skotárásinni í skóla í borginni Roswell í New Mexíkó í Bandaríkjunum í gær. Tólf ára drengur tók upp afsagaða haglabyssu á gangi skólans og skaut á nemendur sem biðu eftir því að skólinn byrjaði.

Masterson gekk að drengnum og fékk hann til þess að leggja byssuna niður.

Drengurinn hæfði annan ellefu ára dreng og þrettán ára stúlku. Ástand stúlkunnar er stöðugt eftir aðgerðir í gærkvöldi en drengurinn er enn í lífshættu. Hann hlaut skotsár í andliti, á hálsi og annarri öxlinni.

Ríkisstjóri New Mexíkó, Susana Martinez, lýsti því yfir að félagsfræðikennarinn Masterson væri sönn hetja. Hann hafi gengið óhræddur í átt að vopnuðum drengnum, þrátt fyrir að drengurinn hafi miðað á kennarann. Masterson sagði í samtali við bandarískt dagblað að ástandið hafi verið hræðilegt, en hrósaði öðrum starfsmönnum skólans fyrir rétt viðbrögð.

Lögreglan hefur hinn 12 ára byssumann í haldi og leita nánari vísbendinga um skipulag skotárasarinnar á heimili drengsins. Lögreglan í New Mexíkó telur að hann hafi varað nokkra nemendur skólans við því að mæta þennan dag. Rannsókn málsins er nú í fullum gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×