Fótbolti

Liverpool missti af Wesley Sneijder

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder.
Wesley Sneijder. Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollenski miðjumaðurinn Wesley Sneijder samþykkti í gær að semja við tyrkneska félagið Galatasaray en leikmaðurinn hefur verið að leita sér að nýju félagi eftir að hafa verið út í kuldanum hjá Internazionale á Ítalíu.

Sneijder hefur verið orðaður við ensk lið þar á meðal Liverpool en ákvað frekar að fara til Tyrklands. Tyrkneska félagið var fyrir búið að semja um kaupverðið við Internazionale fyrir tveimur vikum en erlendir fjölmiðlar segja að Galatasaray hafi borgað tíu milljónir evra fyrir þennan 28 ára gamla leikmann.

Sneijder var með samning við Internazionale til ársins 2015 en hann hitti fulltrúa Galatasaray á hóteli í Mílanó í gær ásamt umboðsmanni sínum þar sem gengið var frá nýjum þriggja og hálfs árs samningi.

Wesley Sneijder sagði í viðtali við heimasíðu Galatasaray að hann vonaðist til þess að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið 27. janúar næstkomandi þegar liðið spilar derby-leik við Besiktas. Sneijder hefur ekki spilað fyrir Internazionale síðan í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×