Fimm menn voru handteknir af lögreglunni á Ísafirði í nótt í tengslum við alvarlegt kynferðisafbrot.
Lögreglan á Ísafirði verst allra fregna af málinu.
Mennirnir verða yfirheyrðir í dag.
Heimildir fréttastofu herma að mennirnir séu af erlendu bergi brotnir.
Þegar fréttastofa náði tali af Hlyni Hafberg Snorrasyni yfirlögregluþjóni á Ísafirði sagði hann að fréttatilkynningar væri að vænta vegna málsins.
Uppfært 14.30
Lögreglan sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu:
„Kl. 04:20 í morgun var lögreglu tilkynnt um að kynferðisbrot hafi átt sér stað í húsi einu á Ísafirði. Brotaþoli, ung kona, var flutt til viðeigandi skoðunar á heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði þar sem hún nýtur einnig aðhlynningar.
Strax í framhaldinu voru 5 karlmenn handteknir. Þeir eru í haldi. Lögreglan á Vestfjörðum nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. Ekki er tímabært að gefa úr frekari upplýsingar um málið enda er rannsókn þess á frumstigi.“
Fimm í haldi vegna kynferðisbrots
Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
