Lífið

Ósagðar sögur Vestmannaeyjagossins

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Jóhanna Ýr Jónsdóttir og Sighvatur Jónsson undirbúa mynd um Vestmannaeyjagosið þar sem áður ósagðar sögur koma fram.
Jóhanna Ýr Jónsdóttir og Sighvatur Jónsson undirbúa mynd um Vestmannaeyjagosið þar sem áður ósagðar sögur koma fram. Mynd/Óskar Pétur

„Við höfum verið þessa hugmynd í kollinum lengi og erum fegin að geta loksins farið alla leið með þetta,“ segir fréttamaðurinn Sighvatur Jónsson sem, ásamt Jóhönnu Ýri Jónsdóttur, er að gera heimildarmynd um Vestmannaeyjagosið.

Sighvatur og Jóhanna Ýr eru gamlir skólafélagar frá Vestmannaeyjum en eiga það sameiginlegt að þau voru ekki fædd þegar gosið átti sér stað. Þau langaði til að taka saman áður ósagðar sögur sem tengjast gosinu og segja af nógu að taka. „Við erum kynslóðin sem upplifir ekki sjálft gosið heldur bara fylgist með eftirmálunum,“ segir Sighvatur sem hefur starfað í sjónvarpi síðustu tíu ár en þetta er í fyrsta sinn sem hann gerir heimildarmynd í fullri lengd.

Myndin ber vinnuheitið Útlendingur heima – uppgjör við eldgos og er vísun í þá tilfinningu sem margir íbúar Vestmannaeyja höfðu eftir gosið. „Mörgum leið eins og útlendingum í eigin landi eftir gos, bæði í Vestmannaeyjum og á fastalandinu,“ segir Sighvatur. Myndin er eins konar uppgjör við gosið þar sem einblínt er á áhrif þess á mannsálina. „Við tölum bæði við fólk sem flutti aftur heim eftir gos og svo þá sem gerðu það ekki. Fáum að vita ástæðuna á bak við þær ákvarðanir og tölum við þá sem voru börn á þeim tíma. Mikið púður fór í uppbyggingu bæjarfélagsins á tímunum eftir gos. Í ljósi umræðu um áfallahjálp í dag er áhugavert að skoða hvernig staðið var að þeim málum á þessum tímum.“

Myndin verður frumsýnd í Vestmannaeyjum í tengslum við Goslokahátíð og sýnd á RÚV í kjölfarið eða þann 7. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×