Innlent

Íslenskur læknir í Boston aldrei upplifað annað eins

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Ólöf Viktorsdóttir
Ólöf Viktorsdóttir
„Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt. Aðrir læknar á spítalanum lýstu svipuðum aðstæðum þann 11. september, en þá var allur spítalinn í viðbragsstöðu og eins þegar næturklúbbur brann í nærliggjandi ríki fyrir nokkrum árum,“ segir Ólöf Viktorsdóttir, svæfinga- og gjörgæslulæknir á Massachusetts General-spítalanum í Boston. Ólöf var á vakt á spítalanum þegar sprengjuárásin í maraþoninu varð á mánudag.

Ólöf segir daginn vera almennan frídag í Boston og að flestir spítalar hafi aðeins verið mannaðir eins og það væri helgi. „Það er hins vegar ekki gefið frí á þessum degi á Mass General þannig að það var sem betur fer nóg starfsfólk til að taka á móti sjúklingum.“ Hún var í vinnunni þegar fréttirnar af sprengingunum bárust.

„Allt var mjög óljóst til að byrja með, hversu margir voru særðir og hversu alvarlega. Öllum aðgerðum sem voru skipulagðar þennan eftirmiðdag var frestað og allar lausar skurðstofur snarlega settar í stand til að taka á móti særðum sjúklingum frá maraþoninu. Allt gerðist mjög hratt og innan við hálftíma eftir atburðinn voru komnir sjö sjúklingar til okkar inn á skurðstofurnar.“

Eins og fram hefur komið eru þrír látnir eftir sprengjuárásina, og nú er talið að 176 hafi særst. Hluti þessa fólks kom á Mass General. „Alls kom 31 sjúklingur á spítalann, með misslæm meiðsli. Allt frá skrámum að alvarlegum brunasárum og sérstaklega virtust vera mikil meiðsli á neðri útlimum. Margir misstu fótlegg,“ segir hún.

Ólöf segir stemninguna í borginni nú vera undarlega en yfirvegaða á sama tíma. „Allir eru mjög slegnir og það er ekki um annað talað. Samt sem áður heldur fólk ró sinni og lífið heldur að mestu áfram eins og vanalega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×