Erlent

Óttast að á fjórða tug gísla hafi látist í Alsír

Óttast er að allt að 34 erlendir gíslar og 14 mannræningjar hafi látið lífið í tilraun alsírska hersins til að frelsa hundruð gísla úr gasvinnslustöð Statoil og BP í gær. Alsírska fréttastofan APS greindi frá þessu í gærkvöld, en aðrir fjölmiðlar sögðu tölu látinna á reiki.

Fram kom á BBC um hálf níuleytið í gærkvöld að aðgerðum hersins við gasvinnslustöðina væri lokið, en fregnir frá atburðinum höfðu verið afar óljósar í allan gærdag. Þar kom fram að fjórir erlendir gíslar hefðu látið lífið, en herinn náð að frelsa hundruð alsírskra gísla og nokkra erlenda ríkisborgara.

Mikið öngþveiti ríkti við vinnslustöðina í gær þar sem herskáir íslamistar tóku 600 alsírska ríkisborgara og um 40 erlenda gísla á miðvikudagskvöld. Svo virðist sem alsírsk stjórnvöld hafi ákveðið upp á sitt eindæmi að senda herinn í aðgerðirnar.

Erlendu gíslarnir, starfsmenn Statoil og BP, eru meðal annars frá Noregi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan og Frakklandi.

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og Espen Barth Eide utanríkisráðherra héldu blaðamannafundi í gær þar sem þeir lýstu yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Alsír og hvöttu stjórnvöld þar í landi til að fara með gát. Stoltenberg bað norsku þjóðina um að sýna skilning á þeim skorti á upplýsingum sem ríkti um afdrif gíslanna í gær. Ekki var enn vitað um afdrif níu Norðmanna sem unnu á stöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×