Erlent

Fjölmenn mótmæli í Pakistan

Tugir þúsunda stuðningsmanna súnní-klerksins Tahir-ul-Qadri mótmæltu ríkisstjórn Pakistans í gær.Fréttablaðið/AP
Tugir þúsunda stuðningsmanna súnní-klerksins Tahir-ul-Qadri mótmæltu ríkisstjórn Pakistans í gær.Fréttablaðið/AP
Órói var í Pakistan í gær í kjölfar þess að hæstiréttur fyrirskipaði handtöku Raja Pervaiz Ashraf forsætisráðherra vegna spillingarmála. Tugir þúsunda mótmæltu ríkisstjórninni á fundi í höfuðborginni Islamabad.

Atburðir gærdagsins hafa vakið grun um að hæstiréttur og herinn vinni saman að því að grafa undan stjórninni í aðdraganda þingkosninga sem fara eiga fram í vor. Fari þær fram án vandræða yrði það í fyrsta skipti sem borgaraleg ríkisstjórn klárar fimm ára kjörtímabil og hlítir í kjölfarið úrslitum kosninga. Herinn hefur steypt flestum fyrri stjórnum af stóli.

Ekki er búist við valdaráni í þetta sinn en víðtæk óánægja með störf stjórnarinnar meðal almennings og innan hersins og dómskerfisins. Meðal þess sem stjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir er mikið atvinnuleysi, regluleg vandræði með rafmagnsleysi og hryðjuverk herskárra íslamista.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×