Erlent

Minnst þrír látnir eftir 100 bíla árekstur

Meðal bíla sem lentu í árekstrinum voru slökkviliðsbílar, enda héldu bílar áfram að bætast í þvöguna þar til veginum var lokað.nordicphotos/afp
Meðal bíla sem lentu í árekstrinum voru slökkviliðsbílar, enda héldu bílar áfram að bætast í þvöguna þar til veginum var lokað.nordicphotos/afp
Að minnsta kosti þrír eru látnir og átján slösuðust í hundrað bíla árekstri á Skáni í suðurhluta Svíþjóðar um hádegisbil í gær.

Slysið varð á E4-hraðbrautinni, nánar tiltekið á Tranarpsbrúnni fyrir utan Helsingjaborg. Mikil hálka var á veginum auk þess sem þykk þoka var, að sögn lögreglu. Bílar úr báðum áttum rákust saman og úr varð mikil óreiða.

„Þetta er versta slys sem ég hef séð á þrjátíu ára ferli. Þetta er tveggja kílómetra löng röð af fimmtíu vörubílum og fimmtíu fólksbílum,“ sagði Jonas Hellsten, yfirmaður björgunaraðgerðanna, við Aftonbladet í gær.

Yfirmaður slökkviliðsins á staðnum sagði við TT-fréttastofuna að margir hefðu verið fastir í bílum sínum. Klippa þurfti marga út úr bílunum og var í gærkvöldi talið að tala látinna gæti hækkað. Mikil óreiða ríkti á slysstaðnum enda bættust bílar lengi í áreksturinn. Eftir áreksturinn var veginum lokað í báðar áttir og verður hann ekki opnaður fyrr en í morgunsárið í dag. Um miðjan dag í gær hvatti lögreglan á Skáni fólk til að halda sig heima við vegna þess að aðstæður til aksturs væru alls staðar slæmar.

„Við sáum þrjár manneskjur standa á veginum og reyna að benda ökumönnum á að hægja á sér. Svo kom vörubíll á miklum hraða til vinstri við mig. Hann rann til og ók á einn mannanna. Hann klemmdist milli bílsins og vegriðs og dó,“ sagði sjónarvotturinn Hada Brkic við Aftonbladet. Hún var í bíl ásamt móður sinni, systur og tveimur börnum, en þau náðu að stöðva bíl sinn. Annar sjónarvottur, Annika, sagðist hafa reynt að bjarga manninum, en það hefði verið of seint. „Öll brúin hristist til, það var mjög óþægilegt,“ sagði hún.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×