Erlent

Frakkar fá stuðning í aðgerðum í Malí

Stjórnarhermenn frá Malí stöðvuðu bíla á eftirlitsstöð sem komið hefur verið upp á vegi sem leiðir til Diabaly, sem íslamistar tóku yfir í gær.
Stjórnarhermenn frá Malí stöðvuðu bíla á eftirlitsstöð sem komið hefur verið upp á vegi sem leiðir til Diabaly, sem íslamistar tóku yfir í gær.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í gærkvöldi um stöðu mála í Afríkuríkinu Malí, þar sem átök hafa farið harðnandi. Herskáir íslamistar lögðu í gær undir sig bæinn Diabaly, 400 kílómetrum frá höfuðborginni Bamako, á meðan franskar hersveitir vörpuðu sprengjum á hernaðarlega mikilvæg skotmörk.

Fregnir herma að yfir 100 íslamistar hafi látið lífið í átökum undanfarinna daga. Að auki hafa minnst ellefu malískir stjórnarhermenn og franskur þyrluflugmaður látist.

Bærinn sem íslamistarnir náðu á sitt vald í gær er í miðju landinu, á svæði sem stjórnvöld stjórna. Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakka, sagði harða bardaga hafa átt sér stað milli malíska stjórnarhersins og íslamistanna frá því á sunnudagskvöld. Á sunnudag gerðu Frakkar loftárásir á bækistöðvar uppreisnarmannanna í nágrenni Diabaly, en í bænum eru einnig mikilvægar bækistöðvar malíska stjórnarhersins. Íbúi sagði breska ríkissjónvarpinu, BBC, að átökin hefðu staðið yfir í tíu klukkustundir.

Þá voru gerðar loftárásir á skotmörk í bænum Douentza og herma fregnir að þær hafi margar hitt höfuðstöðvar íslamista. Þeir hafi hins vegar verið á bak og burt þegar árásirnar hófust.

Frakkar hófu hernaðaríhlutun í landinu á föstudaginn til þess að reyna að stöðva framgang íslamista, sem sölsuðu norðurhluta Malí undir sig fyrir tæpu ári og hafa verið að færa sig sunnar. Um helgina voru loftárásirnar hertar til muna.

Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, segir að íhlutunin muni vara í nokkrar vikur og hafnaði öllum samanburði við aðgerðir bandamanna í Afganistan. „Seinna getum við komið inn til stuðnings, en við höfum engar fyrirætlanir um að vera að eilífu,“ sagði hann.

550 franskir hermenn voru sendir til höfuðborgarinnar Bamako og til bæjarins Mopti. Til stendur að hermenn frá nágrannaríkjum Malí; Níger, Búrkína Fasó, Nígeríu og Tógó, komi til liðs við þá á næstu dögum. Þá hafa Bretar sent nokkrar flutningavélar og Bandaríkjamenn senda sjálfstýrðar eldflaugar auk þess sem bæði ríki styðja með öðrum hætti við aðgerðir Frakka. Þá samþykktu Danir að aðstoða við aðgerðirnar í gærkvöldi. Þeir munu senda herflugvél og gögn til Frakka.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×