Innlent

„Þegar vinir manns verða fyrir áföllum þá faðmar maður þá“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í myndbrotinu sést Össur ganga út úr kjörklefa með atkvæði í hönd, en Kári kemur út úr klefanum við hliðina á honum og gengur í veg fyrir hann án þess að verða hans var.
Í myndbrotinu sést Össur ganga út úr kjörklefa með atkvæði í hönd, en Kári kemur út úr klefanum við hliðina á honum og gengur í veg fyrir hann án þess að verða hans var.

„Það vill svo til að ég og Össur erum gamlir félagar, en ég er blindur á hægra auga og ég sá hann ekki,“ segir Kári Stefánsson, kenndur við Íslenska erfðagreiningu, en spaugilegt myndbrot hefur gengið netverja á milli í dag af honum og Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra Samfylkingarinnar.

Í myndbrotinu sést Össur ganga út úr kjörklefa með atkvæði í hönd, en Kári kemur út úr klefanum við hliðina á honum og gengur í veg fyrir hann án þess að verða hans var. Kári er íklæddur svörtum fötum og hefur barðastóran hatt á höfði. Össuri virðist brugðið og leyfir hann Kára að klára áður en hann setur atkvæði sitt í kassann.

Kári segir að ef hann hefði séð Össur hefði hann líklega faðmað hann, því hann ætti von á því að Össur yrði fyrir áfalli í dag.

„Þegar maður verður fyrir því slysi að vera ráðherra í slæmri ríkisstjórn þarf maður á faðmlagi að halda. Og þegar vinir manns verða fyrir áföllum þá faðmar maður þá,“ segir Kári, en hann hafði ekki séð myndbrotið þegar Vísir hafði samband.

„Ég er nú hérna í sumarbústað, fullum af krökkum, og má ekkert vera að því að eltast við myndbönd á netinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×