Félag var stofnað í dag um átján milljarða króna uppbyggingu hafnar á Dysnesi við Eyjafjörð til að þjóna verkefnum á Norðurslóðum. Aðstandendur vonast til að framkvæmdir hefjist á næsta ári.
Dysnes er fimmtán kílómetrum norðan Akureyrar en sveitarfélögin við Eyjafjörð, í gegnum Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Hafnasamlag Norðurlands, stofnuðu félag um Dysneshöfn í dag ásamt Eimskip, Slippnum á Akureyri og verkfræðistofunni Mannviti. Félagið hyggst þegar hefja gerð umhverfismats fyrir höfn með allt að 300 metra viðlegukanti.
„Hafnarmannvirki af þessari stærðargráðu vantar við norður Ísland," segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins, í viðtali í fréttum Stöðvar 2. „Þýðing Íslands í breyttum heimi er einfaldlega miklu meiri heldur en hún var fyrir fimm árum. Eftir þessu er kallað. Við finnum fyrir áhuga erlendis frá."
Höfninni er ætlað að þjóna umsvifum á Grænlandi vegna námavinnslu og olíuleitar, olíuleit á Drekasvæðinu og siglingum yfir Norðurpólinn. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir að vegna nálægðar við Akureyri sé Dysnes ákjósanlegur staður fyrir þjónustuhöfn:
„Við sjáum þetta sem gríðarleg tækifæri, - og allavega hluti sem við getum ekki bara staðið og horft á gerast. Við verðum að taka frumkvæði í þessu. Við verðum að fara út á markaðinn og kynna Ísland," segir Gylfi.
En eru þessi verkefni og tækifæri að bresta á?
„Þau eru það, tvímælalaust, og í rauninni mikið nær okkur. Það eru fyrirliggjandi verkefni nú þegar. Ef við hefðum þessa aðstöðu núna gætum við komið þessu í brúk strax," svarar Þorvaldur Lúðvík.
Miklar deilur voru á sínum tíma um álver á Dysnesi en forsvarsmenn þessa verkefnis telja að sátt geti orðið meðal Eyfirðinga um Dysneshöfn. Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, bendir á að þetta sé ekki orkufrekt og þessu fylgi ekki mengun umfram það sem fylgir öðrum mannanna verkum. „Þannig að þetta verður í friði við íbúana og nágrennið," segir Oddur.
Hafnargerðin er talin kosta átján milljarða króna. „Stór verkefni sem þarna fara í gang og meiri þjónusta þýðir auðvitað bara aukin atvinna, skatttekjur og svo framvegis. Þetta skilar samfélaginu öllu gríðarlegum ávinningi," segir Þorvaldur Lúðvík.
Spurður hvenær framkvæmdir gætu hafist svarar Þorvaldur Lúðvík: „Ef ég á að vera bjartsýnn, þá get ég sagt um mitt árið 2014."
