Innlent

Stukku minningarstökk fyrir fallna vini

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Íslendingahópurinn ákvað að vera áfram á Flórída til að heiðra minningu félaga sinna.
Íslendingahópurinn ákvað að vera áfram á Flórída til að heiðra minningu félaga sinna.
FFF - Fallhlífastökksfélagið Frjálst Fall birti á Facebook-síðu sinni í morgun mynd af Íslendingahópnum sem fór í árlega kennsluferð til Flórída á dögunum. Var myndin tekin rétt áður en stokkið var minningarstökk fyrir fallna vini.

Eins og greint hefur verið frá létust tveir Íslendingar í ferðinni, þeir Andri Már Þórðarson og Örvar Arnarson, þegar fallhlífar þeirra opnuðust ekki í stökki á laugardag. Íslendingahópurinn ákvað að vera áfram á Flórída til að heiðra minningu félaga sinna.

Á myndinni hefur hópurinn stillt sér upp og skilið eftir pláss fyrir tvo inni á milli. Þetta segir einn félagsmanna FFF tákna þá Andra og Örvar, en með myndinni fylgdu minningarorð.

„Við heiðruðum minningu tveggja fjölskyldumeðlima okkar í dag með fullri vél af Íslendingum. Þessir heiðursmenn voru í huga og hjarta okkar og munu fylgja okkur að eilífu. Áttum saman kyrrðarstund fyrir heiðurs og minningarstökkið þar sem hugar okkur sameinuðust í góðum minningum um þessa föllnu vini. Stökkheimurinn stendur á öndinni og við höfum fengið samúðarkveðjur frá öllum heimsálfum sem við erum afskaplega þakklát yfir."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×